Klassart
Hljómsveitin Klassart var stofnuð árið 2006 af systkinunum Smára Guðmundssyni og Fríðu Dís Guðmundsdóttur. Fyrsta plata Klassart, Bottle of Blues, kom út ári síðar og fékk hún einróma lof gagnrýnenda. Lögin eru öll blúskotin og sungin á ensku nema eitt, Örlagablús, sem náði hátt í vinsældalistum og sat lengi í efsta sæti á lista Rásar 2. Önnur hljóðversplata hljómsveitarinnar kom út árið 2010 og ber hún heitið Bréf frá París. Lagið Gamli grafreiturinn var mest spilaða lagið á plötunni og jafnframt það mest spilaða á Rás 2 það árið. Sumarið 2014 kom út þriðja breiðskífa Klassart sem nefnist Smástirni en á plötunni kveður við nýjan tón. Segja mætti að tónlistin á fyrri plötunum tveimur sé kántrí- og blússkotin en Smástirni einkennist fremur af synthum og ævintýralegum laga- og textasmíðum sem skapa angurværar melódíur í bland við taktfast popp. Geimsteinn sá um útgáfu á fyrstu þremur plötum Klassart.
Systkinin skipta bróðurlega með sér verkum. Smári sér um að skapa grunna og Fríða semur laglínur og texta. Tónlistin er svo mótuð og unnin í sameiningu. Hljómsveitin hefur tekið á sig margar myndir frá stofnun hennar, allt frá því að vera dúett í að skipa 9 manna hljómsveit. Í grunninn eru það þó Smári og Fríða sem eru hjartað og heilinn að baki tónlistinni.
Árið 2009 ákváðu þau að semja tónlist við nokkur kvæði Hallgríms Péturssonar ásamt Pálmari Guðmundssyni bróður þeirra. Þegar Hallgrímur sneri aftur til landsins frá Kaupmannahöfn þjónaði hann um stund í Hvalsneskirkju í Sandgerði. Þar fannst fyrir nokkrum árum legsteinn Steinunnar, dóttur Hallgríms og Guðríðar Símonardóttur, sem lést á fjórða ári. Eitt af lögum Klassart í þessu verkefni er við ljóðið Nú ertu leidd mín ljúfa sem er ort af Hallgrími til dóttur sinnar í kjölfar dauða hennar og er af mörgum álitið eitt fegursta erfiljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu. Talið er að Hallgrímur hafi sjálfur hoggið nafn Steinunnar á legsteininn sem liggur í Hvalsneskirkju þar sem lögin verða hljóðrituð. Áætluð útgáfa laganna við kvæði Hallgríms er haustið 2019.
Ljósmynd: Þorsteinn Surmeli