Hlynur Þór

Hlynur Þór ,sem er keflvískur Sandgerðingur, hefur verið tengdur tónlist allt frá unglingsárum og komið víða við. Hann hefur fengist við pönk og þjóðlagatónlist og margt þar á milli. Nefna má LF Lóðarí, Sex Division, Klassart, Rolf Hausbentner Band og Matti Óla sem listamenn sem hafa notið liðsinnis Hlyns í upptökum og tónsmíðum í gegnum tíðina. Hann er annar helmingurinn af trúbadoradúettinum Hobbitunum (sem síðar varð hljómsveitin Föruneytið) sem glatt hefur Suðurnesjamenn sem aðra landsmenn við allskonar tilefni til fjölda ára. Þá ónefndur Dúettinn 10, sem Hlynur Þór skipaði ásamt Sigurði Guðmundssyni fyrir allmörgum árum.

Hlynur Þór var virkur félagi í AFTAN festival hópnum sem stóð að tónleikum á Suðurnesjum og hefur staðið á bak við tónlistarviðburðinn Snúran sem haldin hefur verið reglulega í Sandgerði. Hlynur Þór situr í stjórn Jazzfjelags Suðurnesjabæjar.

Hlynur Þór Valsson hefur gefið út lagið Förumaður sem er það fyrsta sem kemur út undir hans eigin nafni. Förumaður er amerískt eða írskt þjóðlag, en fólki ber ekki saman um uppruna þess. Á frummálinu heitir lagið Moonshiner en Hlynur Þór hefur gert eigin texta við lagið. Stemmningin er saga einfarans sem brennt hefur allar brýr að baki og horfir inn í sólarlag lífs síns

Förumaður var tekið upp í Smástirni undir stjórn Smára Guðmundssonar sem jafnframt leikur á gítara og bassa. Hlynur Þór sér um söng og kassagítarleik en Sigurgeir Sigmundsson dregur hólkinn yfir pedal-steel-gítar. Trommuleikurinn kemur frá Halldóri Lárussyni, Ari Bragi Kárason blæs í trompet og Stefán Örn Gunnlaugsson sér um bakraddir og hljóðblöndun á laginu. Lokaáferðin var svo sett með masteringu frá Sigurdóri Guðmundssyni í Skonrokk Studios.